Faðir Ásu Skúladóttur stundar fjársvik á Lambeyrum
Þinglýstur eigandi að Lambeyrum er Dön ehf.
Opinberar upplýsingar sýna að ríkissjóður hefur greitt 30 milljónir til hluthafa Dön ehf. í ríkisstyrki vegna sauðfjárræktar en félagið hefur ekki framleitt eitt kíló af kjöti.
Hvorki Dön. ehf eða hluthafar í félaginu hafa átt sauðkind, fjárhús, tún eða stundað sauðfjárrækt og Lambeyrar standa ekki undir því að vera lögbýli samkvæmt búvörulögum.
Dön ehf. er í eigu Sævars Þorbjörnssonar (Verkfræðingur hjá Skjanna ehf) og eiginkonu hans Lilju Einarsdóttur (Kerfisfræðingur), Skúla Einarssonar (Kerfisfræðingur) og Valdísar Einarsdóttur (Safn og skjalavörður hjá Dalabyggð).
Það er auðvelt að fletta þessu upp á vefnum en ríkisstyrkir eru skráðir opinberlega samkvæmt lögum og birtir á mælaborði landbúnaðarins.
https://www.stjornarradid.is/verkefni/atvinnuvegir/landbunadur/maelabord-landbunadarins-/#Tab2
Dön ehf. kaupir Lambeyrar á nauðungarsölu þann 3. febrúar 2017 en greiða skal fyrir landnúmerið 24. febrúar 2017. Afsal fyrir landnúmerinu er ekki gefið út fyrr en 24. maí 2017, eða þrem mánuðum seinna en lög gera ráð fyrir. Engar fasteignir eða tún fylgja með og því augljóst að ekki er hægt að stunda sauðfjárrækt á landnúmeri sem hefur ekkert land samkvæmt deiliskipulagi Dalabyggðar.
Fylgiskjal - Gerðarbók vegna nauðungarsölu
Fylgiskjal - Yfirlýsing og afsal vegna nauðungarsölu
Fylgiskjal - Úrskurður sýslumanns vegna nauðungarsölu
Þegar greiðsla er innt af hendi fyrir landnúmer Lambeyrar, fylgir greiðslumarkið ekki með. Hvergi er minnst á að greiðslumarkið eigi að fylgja með landnúmerinu. Íslandsbanka hf., sem er gerðarbeiðandi, lagði aldrei fram kröfu um að greiðslumarkið yrði selt með landnúmerinu og skilgreindi aldrei landstærð Lambeyra eða hvort fasteignir fylgdu með.
Allar þær fasteignir sem þurfti til að standa undir því að vera lögbýli, voru ekki fyrir hendi á Lambeyrum, en Lambeyrar Lóð 1 og Dönustaðir uppfylltu öll skilyrði til að vera lögbýli.
Þegar Lambeyrar voru seldar á nauðungarsölu voru í gildi búvörulög nr. 99/1993 með síðari breytingum. Í 38. gr. laganna er kveðið á um að sé ábúandi annar en eigandi lögbýlis, þurfi samþykki ábúanda og eiganda fyrir framsali greiðslumarks. Sýslumaður gat því ekki selt greiðslumark jarðarinnar án samþykkis Daða Einarssonar, sem var ábúandi Lambeyra og átti auk þess 100% af þeim bústofni sem var á jörðinni.
Þrátt fyrir ofangreind atriði færir Matvælastofnun greiðslumarkið á Lambeyrar sex mánuðum eftir nauðungaruppboðið þegar Skúli Einarsson fer að sækjast eftir greiðslumarkinu. Hvergi kemur fram að greiðslumarkið hafi fylgt með og engin fyrirspurn er lögð fram við uppboðið eða þegar greitt er fyrir landnúmerið. Fulltrúi sýslumanns fer ekki að lögum og staðfestir að greiðslumarkið fylgi með meira en sex mánuðum eftir uppboðið og þá án þess að leita samþykkis ábúanda samkvæmt lögum.
Niðurstaðan sex árum seinna af þessum mistökum Sýslumannsembættisins, Matvælastofnunar og síðar Matvælaráðuneytisins, er að skattborgarar landsins hafa greitt 29.916.740 krónur til Dön ehf. frá 2017 til 2022 í ríkisstyrki vegna sauðfjárræktar (698.8 ærgildi) án þess að Dön ehf. hafi framleitt eitt kíló af lambakjöti.
Ríkisstyrkir eru greiddir til hlutafélags þar sem hluthafar eru í fyllstu merkingu lífstílsbændur og meðvitaðir um þau fjársvik sem þau eru að framkvæma þ.e.a.s. að taka við ríkisstyrkjum til sauðfjárræktar án þess að stunda sauðfjárrækt.
Hluthafar í Dön ehf. eru vel menntað, upplýst og efnamikið fólk sem getur ekki falið sig á bak við fávisku eða nauð, um er að ræða yfirveguð fjársvik og hagnaðarvon. Hluthafarnir áttu alls ekki að sækjast eftir eða taka við þessum ríkisstyrkjum.
Daði Einarsson hefur átt samskipti við Matvælastofnun og Matvælaráðuneytið frá því í september 2017. Daði Einarsson hefur einnig gert ítrekaðar tilraunir til að fá fund með síðustu tveim ráðherrum (Kristján Þór og síðar Svandísi Svavarsdóttur), en aldrei fengið svar.
Sá starfsmaður innan Matvælastofnunar sem urðu á þau mistök að færa greiðslumarkið á Lambeyrar svarar fyrir hönd ráðherra varðandi sín eigin mistök.
Fylgiskjöl sýna samskipti Daða Einarssonar og lögmanns hans, Hjörleifs Kvaran við ráðuneytið um þá ríkisstyrki sem greiddir eru til Danar ehf.
Fylgiskjal - Netpóstur Daða Einarssonar 18. október 2020
Daði Einarsson fær loksins bréf frá Matvælaráðuneytinu dagsett 20. desember 2021 sem svar við netpósti sem Daði sendir 18. október 2020, þ.e.a.s. það tók rúmlega ár að svara póstinum.
Fylgiskjal - Svar ráðuneytisins 20. desember 2021
Svarið gaf til kynna að ráðuneyti bæri skilning á erindinu;
„Vísað er til erindis yðar frá 18. október 2020 og síðari tölvubréfa, síðast í október á þessu ári. Varða erindi þessi greiðslumarksréttindi á Lambeyrum og Dönustöðum í Laxárdal. Að því best verður ráðið má draga erindi yðar svo saman að þér farið fram á að ráðuneytið taki tvær ákvarðanir, að felldur verði niður lögbýlisréttur á Lambeyrum og að greiðslumark jarðarinnar verði skráð á Dönustaði. Orða má þetta svo að þér óskið þess að greiðslumarksskráning verði leiðrétt.“
og grunur var að læðast inn að ekki væri allt með feldu:
„Í ljósi framangreinds er þess farið á leit við yður, er þér svo kjósið, að þér afmarkið betur kröfur yðar, þau sjónarmið sem eru til grundvallar og leggið fram frekari gögn. Í framhaldi þess mun ráðuneytið taka afstöðu til þess hvort skilyrði séu til frekari athugunar.“
Daði Einarsson réð því Hjörleif Kvaran lögmann til að skilgreina og afmarka þá kröfu sem verið var að gera af ráðuneytinu. Bréf Hjörleifs Kvaran til ráðuneytisins, skilgreinir og afmarkar þær ákvarðanir sem Daði fer fram á og hvetjum við ykkur eindregið til að lesa og kynna ykkur efni bréfsins og þau fylgiskjöl sem fóru til ráðuneytisins með bréfinu.
Fylgiskjal - Bréf Hjörleifs Kvaran til ráðuneytisins ásamt fylgiskjölum
Fylgiskjal - Svar ráðuneytisins 9. júní 2022
Eftir fimm ára baráttu til að fá þetta leiðrétt og þegar allir sjá að þetta er ekki rétt og að ráðuneytið er að greiða ríkisstyrki til lífstílsbænda, þá er svar ráðuneytisins 9. júní 2022 eftirfarandi varðandi lögbýlisrétt Lambeyra:
„Ráðuneytið mun því ekki endurskoða skilyrði fyrir veitingu lögbýlisréttar á Lambeyrum á þessum tímapunkti en ábending þín verður vistuð á málaskrá ráðuneytisins.“
Spurningin er því:
Hvenær er rétti tímapunkturinn til að stoppa fjársvik?
Getur það talist eðlileg afgreiðsla að vista fjársvik í málaskrá ráðuneytis og greiða svikahrappnum áfram ?
Svar ráðuneytisins varðandi færslu á greiðslumarki á Dönustaði er eftirfarandi:
„Með vísan til alls framangreinds er það afstaða Matvælaráðuneytisins að það sé ekki á hendi ráðuneytisins að taka afstöðu til flutnings greiðslumarks. Mögulega er unnt að láta reyna á slíkt fyrir dómstólum með vísan til 3. mgr. 80. gr laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, ef það er mat aðila að ekki hafi verið skilyrði fyrir nauðungarsölu eða ranglega verið staðið að henni.“
Matvælaráðuneytið og Sýslumannsembættið stóðu bæði að því að flytja greiðslumarkið á landnúmer sem ekki uppfyllti skilyrði til að teljast lögbýli.
Ráðuneytinu bar fyrst og fremst skylda til að tilkynna Sýslumannsembættinu að greiðslumarkið gat ekki fylgt landnúmerinu nema með samþykki ábúanda og að spildan gat ekki haldið lögbýlisrétti sem sauðfjárbú og greiðslumarkshafi samkvæmt búvörulögum.
Ráðuneytið sinnti ekki skyldu sinni gagnvart skattgreiðendum.